Ávarp bæjarstjóra

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar


Velkomin á  vef okkar sem inniheldur upplýsingar um hvað er í boði fyrir íbúa í Reykjanesbæ í íþróttum og tómstundum. Á sumrin heitir hann Sumar í Reykjanesbæ en á veturna Vetur í Reykjanesbæ.

Mjög mikilvægt er að taka þátt í skemmtilegu starfi og lengi hefur verið vitað að hreyfing er grundvöllur andlegrar og líkamlegrar vellíðunnar. Hvatning og þátttaka foreldra og forráðamann skiptir miklu máli þegar kemur að þátttöku ungmenna í fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi, sem er mjög mikilvæg til að styðja uppvöxt þeirra og þroska.

Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag, sem er verkefni á vegum Embættis landlæknis en með verkefnastjórn og verkefnateymi í Reykjanesbæ. Verkefnið snýst um að hafa val um hreyfingu og útivist og geta valið hollan kost. Í Reykjanesbæ höfum við góða aðstöðu til hreyfingar, bæði í íþróttamannvirkjum og eins á opnum svæðum víðs vegar um bæinn. Einnig er í gangi heilsuefling hjá íbúum 65 ára og eldri undir stjórn dr. Janusar Guðlaugssonar íþrótta- og heilsufræðings.

Aukin kyrrseta er mörgum áhyggjuefni. Gögn um daglega hreyfingu almennings gefa til kynna að rúmlega þriðjungur íbúa heims nái ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar. Hér á landi vantar einnig nokkuð upp á að þessu lágmarki sé náð en það er 30 mínútur á dag. Íslenskar rannsóknir sýna að um helmingur af þessum tíma, eða um 15 mínútur á dag, vantar upp á til að Íslendingar nái þeim viðmiðum sem alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir hafa sett. Þrátt fyrir mikla þekkingu á jákvæðum áhrifum af reglubundinni hreyfingu þá fer hún minnkandi. Árið 2009 var talið að hlutfall þeirra jarðarbúa sem væru óvirkir eða hreyfðu sig ekki sem neinu næmi væri um 17%.

Þessu viljum við breyta. Verum úti allan ársins hring - fjölskyldan saman í hverskyns hreyfingu og skemmtun og setjum börnum okkar gott fordæmi.

Njótið lífsins

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri