Ávarp bæjarstjóra

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar


Velkomin á nýjan vef okkar sem inniheldur upplýsingar um hvað er í boði fyrir börn og ungmenni í Reykjanesbæ sumarið 2017.

Mjög mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn hvetji ungmenni til þátttöku í fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi sem er mikilvægt til að styðja uppvöxt þeirra og þroska. Sumarið er tíminn, tíminn til að upplifa og njóta tilverunnar og útivistar og fagna því að vetri sé lokið.

Reykjanesbær varð á síðasta ári heilsueflandi samfélag, sem er verkefni á vegum Embættis landlæknis en með verkefnastjórn og verkefnateymi í Reykjanesbæ. Verkefnið snýst um að hafa val um hreyfingu og útivist og geta valið hollan kost. Í Reykjanesbæ höfum við góða aðstöðu til hreyfingar, bæði í íþróttamannvirkjum og eins á opnum svæðum víðs vegar um bæinn.

Aukin kyrrseta er mörgum áhyggjuefni. Gögn um daglega hreyfingu almennings gefa til kynna að rúmlega þriðjungur íbúa heims nái ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar. Hér á landi vantar einnig nokkuð upp á að þessu lágmarki sé náð en það er 30 mínútur á dag. Íslenskar rannsóknir sýna að um helmingur af þessum tíma, eða um 15 mínútur á dag, vantar upp á til að Íslendingar nái þeim viðmiðum sem alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir hafa sett. Þrátt fyrir mikla þekkingu á jákvæðum áhrifum af reglubundinni hreyfingu þá fer hún minnkandi. Árið 2009 var talið að hlutfall þeirra jarðarbúa sem væru óvirkir eða hreyfðu sig ekki sem neinu næmi væri um 17%.

Þessu viljum við breyta. Verum úti í sumar - fjölskyldan saman í hverskyns hreyfingu og setjum börnum okkar gott fordæmi.

Gleðilegt sumar.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri